Aðalfundur 2024
-


Sumarbústaðafélagið Norðurnes. Aðalfundur 30. apríl 2024

Formaður setur fundinn klukkan 19:00 og tilnefnir Árna R. Gíslason fundarstjóra. Jón Bjarnason meðstjórnandi fráfarandi stjórnar las fundargerð síðasta aðalfundar. Athugasemdir við fundargerð voru engar og telst hún því samþykkt. Mætingarlisti var á fundinum og taldist fundarstjóra að fulltrúar 29 lóða/húsa væru mættir og fundurinn því lögmætur til að taka ákvarðanir í samræmi við samþykktir félagsins.

Sigurður Stefánsson las skýrslu stjórnar og fór yfir helstu verkefni á árinu. Voru þau helst vinna við stíflugerð og vegalagningu að vatnsbólinu. Sett var símahlið á svæði 1. Rafmagn fyrir hliðið er fengið úr bústað nr. 1 með frádráttarmæli og eru Benedikt og Birnu á nr. 1 færðar bestu þakkir fyrir að leyfa félaginu að tengjast við rafmagnið. 

Eins og kunngert var á aðalfundi 2023, eftir samþykkt framkvæmda- og árgjalds, var þeim sem áttu tvær lóðir gefinn kostur á á sameina lóðirnar inna tveggja mánaða og greiða þar með eitt árgjald fyrr eina sameinaða lóð en tvö gjöld ella, eitt fyrir hvora lóð. Fjórir aðilar kusu að gera það og fækkaði skráðum lóðum því í 82 vegna sameininga en höfðu áður verið 86. Engar athugasemdir bárust um skýrslu stjórnar og umræður um hana voru nær engar. Var því farið í að fjalla um skýrslu gjaldkera og kynna ársreikning. Eftir kynningu gjaldkera var auglýst eftir athugasemdum og engar bárust. Reikningar síðasta árs voru því samþykktir einróma. 

Næst er formaður kjörinn. Sigurður Stefánsson (39) býður sig fram og er hann sjálfkjörinn þar sem engin önnur framboð komu fram. Þeir sem buðu sig fram til setu í stjórn voru Kári (48), Karl (10), Jón (74) og Árni R. Gíslason (59) kom inn fyrir Sigurð Svein (56) en hann gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Engin önnur framboð komu og var stjórn því kjörinn. Til vara voru kjörin Ragnhildur (73) og Benedikt (1). 

Kosning skoðunarmanna reikninga var samþykkt með endurkjöri Björgvins og Birnu (33).

Formaður fór síðan í að kynna framkvæmdaáætlun og fyrirliggjandi verkefni. 

Kostnaður hefur farið verulega fram úr áætlunum sem voru þó kynntar á síðasta aðalfundi með þeim fyrirvara að þær væru ónákvæmar. Kostnaður er mun meiri en gert var ráð fyrir, bæði framkvæmdir við stíflu auk fyrirhugaðra kaupa á búnaði og smíði á dæluhúsi. Alls er kostnaðarauki búnaðar um 7,5 milljónir frá fyrri áætlunum. Stífla fór einnig fram úr um 2,5 milljónir og fyrirsjáanlegur heildarkostnaður hefur því farið um 10 milljónir fram úr áætlun. Hönnun á búnaði byggir á að hafa sjálfvirkan síubúnað, þrýstiaukadælur og UV-ljóshreinsun. Spurt er um þrýsting og hann á að vera 4 bör í því húsi sem stendur hæst (74) og því hærri alls staðar annarsstaðar. Rætt um kerfislæga hluti eins og þrýstiminnkun og annað. Niðurstaða yfirferðar um framkvæmdaáætlun er því tillaga er miðar að því að hækka árgjald frá 50.000 í 70.000 og hafa 70.000 króna framkvæmdagjald að auki til að ljúka framkvæmdum við vatnsveitu og annað sem kynnt er nánar í framkvæmdaáætlun. 

Kynntur var hluti framkvæmdaáætlunar sem felst í um 1,5 milljóna endurbótum á girðingu umhverfis svæðið. Auglýst var á fundinum eftir aðila til að sjá um og framkvæma girðingarvinnuna en enginn gaf sig fram. Sá aðili sem hefur gert þetta fyrir félagið áður varð fyrir aðkasti við vinnu sína og treystir sér ekki til að sinna þessu áfram. Fundarstjóri lagið til að hluti framkvæmdagjalds verði 1,5 milljónir og fenginn verði verktaki til að sjá um vinnuna. Það var samþykkt. Varðandi framræsluskurð á milli svæða 2 og 3 þá er í framkvæmdaáætlun gert ráð fyrir kostnaði upp á um 800 þúsund krónur til að hreinsa upp úr skurðinum. Fundarmenn fallast á það og samþykkja. Lagfæringar á vegum eru metnar á um 1,5 milljónir í framkvæmdaáætlun og samþykkja fundarmenn það auk hins hefðbundna reksturs félagsins sem er talin vera um kr. 600.000. Fram kom að enn er óánægja með aðild að Landssambandi sumarhúsaeigenda og kom fram í máli eins fundarmanns að litlar upplýsingar væri að finna á vefsíðu Landssambandsins og ekki hægt að skoða ársreikninga. Því væri óvíst með ábatann af aðildinni en hún kostar kr. 144.000 á ári.

Það er komin ný myndavél við bústað nr. 59 sem verður sett inn á vefinn. Einnig verður sett upp vél við hlið á svæði 1 sem mun rata á vefsíðu félagsins.

Í framkvæmdaáætlun er einnig að finna tillögu stjórnar um snjómokstursþjónustu og hálkuvarnir í hverfinu. Framkomið tilboð frá verktaka upp á 1,3 milljónir var kynnt en það felur í sér að svæðinu öllu sé haldið sé opnu föstudaga, laugardaga og sunnudaga, auk milli jóla og áramóta, frá nóvember og fram í apríl. Tillagan er samþykkt um að halda opnu föstudaga, laugardaga og sunnudaga auk hátíðanna. 

Framkvæmdaáætlun telst því samþykkt og framkvæmdagjald er kr. 70.000. Þá var einnig samþykkt árgjald upp á kr. 70.000,-. Heildargjald á hverja lóð er því kr. 140.000 og verður skipt í fjóra jafna hluta sem innheimtir verða mánaðarlega, 15 maí, 15 júní, 15, júlí og 15. ágúst

Samkvæmt auglýstri dagskrá fundarins er aðalfundi falið að skipa í nefndir félagsins. Brenna um verslunarmannahelgi er í umsjón brennunefndar. Ákveðir er að halda brennuna eitt árið enn og auglýst eftir brennustjóra. Sá sem býður sig fram er Heiðar Páll Atlason (73). Aðrar nefndir eru á forræði stjórnar. 

Önnur mál voru ekki fyrirferðarmikil. Hafþór vakti mál á breytingu á hámarkshraða innan svæðis og lagið hann til að sett yrðu upp skilti til áminningar fyrir ökumenn. Hann bauðst jafnframt til að vinna verkið og gera skiltin. Þá var vakin athygli á því að hliðið eigi það til að lokast ef fleiri en einn bíll reynir að fara í gegn. Þessu er beint til stjórnar að leysa. 

Ein spurning kom fram er varðar upplýsingagjöf til lóðaeigenda og húseigenda. Hún er að mestu leiti bundin við Facebook og heimasíðu og fréttir eru sendar á það tölvupóstfang sem er á skrá í félaginu. Engar leiðir eru færar til að tryggja að rétt netföng séu til staðar. Einnig hefur komið fram á fyrri fundum að félagatal byggir alfarið á tilkynningum um eigendaskipti húsa og lóða. Samskipti við félagsmenn hafa að mestu færst yfir á Facebook síðu félagsins. Eftir aðalfund 2023 fór nýkjörinn formaður af stað með að hreinsa út aðila af Facebook síðunni sem ekki tengjast félaginu með beinum hætti en hann hefur að mestu fallið frá þeirri ákvörðun. Að mati formanns er því ekki talin þörf á að ritstýra frekar samfélagmiðlum eða öðrum samskiptagáttum. Tilmæli eru til nýrra eigenda og annarra sem vita betur um eigendaskipti og aðrar vendingar að láta stjórn félagsins vita af slíku. 

Engin önnur mál voru borin upp og fundi því slitið klukkan 20:25

Sigurður Sveinn Jónsson