Aðalfundur 2021
Jun 03 '21


Aðalfundur Sumarhúsafélagsins Norðurnes (460678-0729), haldinn í sal Rauða krossins í Hafnafirði
þann 3. júní 2021 kl. 19:30.

Sigurður Sveinn Jónsson og Karl Arthúrsson settu fundinn vegna forfalla Jóns Bjarnasonar formanns.
Auglýst var eftir fundarstjóra en enginn gaf sig fram og tóku þá Sigurður og Karl að sér fundarstjórn.

Þegar nokkuð var liðið á fundinn mætti Jón Snædal og bauðst til að taka við fundarstjórn. Var það samþykkt af fundarmönnum.

Sigurður Sveinn las fundargerð síðasta aðalfundar en þar kom fram að ekki var nægjanlega mikill fjöldi félagsmanna (fulltrúa lóða) mættir til að fundurinn teldist lögmætur.

Lesin var skýrsla stjórnar síðasta árs og var það gert af SSJo í fjarveru formanns. Fram kom að Kjósarhreppur á enga lóð lengur í Norðurnesi. Farið var yfir störf nefnda og fólki þakkað fyrir vel unnin störf. Þá voru þeim færðar sérstakar þakkir sem liðkuðu til fyrir lagningu nýs vegar vegna breytinga á aðkomu inn á svæði 2 og 3 og uppsetningar bómuhliðs. Gjaldkeri fór yfir reikninga síðasta árs en vegna ólögmætis síðasta fundar tókst ekki að breyta prókúru nýkjörins gjaldkera.
Reikningar voru skilmerkilega settir upp og skýringar greiðar. 67.000 krónur eru útistandandi í ógreiddum félagsgjöldum. Lögmæti fundarins var kannað áður en reikningar voru bornir upp til atkvæða. Fundarstjóra og stjórnarmönnum taldist til að fulltrúar 30 lóða væru mættir á fundinn.
Tveir lóðareigendur veittu öðrum viðstöddum fundarmönnum umboð til að fara með sitt atkvæði. Voru umboð könnuð og metin góð og gild. Alls voru því fulltrúar 30 lóða mættir og telst fundurinn því lögmætur sbr. 16. gr. samþykkta. Reikningar voru bornir upp til atkvæðis og voru þeir samþykktir mótakvæðalaust.
Auglýst var eftir framboðum til formennsku. Jón Bjarnason gaf ekki kost á sér til endurkjörs en Árni R. Gíslason (59) bauð sig fram. Hann var kjörinn formaður með öllum greiddum atkvæðum. Björgvin Hauksson (33) og Geir Hauksson (44) gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Auglýst var eftir framboðum til stjórnarsetur og gaf Ragnhildur Gyða Magnúsdóttir (73) sig fram. Benedikt gaf kost á sér áfram til að vera varamaður. Þeir sem kosnir voru í stjórn voru því, Karl Arthúrsson (10), Sigurður Sveinn Jónsson (56), Jón Bjarnason (74) og Ragnhildur Gyða Magnúsdóttir (73). Benedikt Svavarsson (1) var kjörinn varamaður. Skoðunarmaður reikninga var kjörinn Björgvin Hauksson (33) og varamaður hans er Birna Björnsdóttir (33).

Framkvæmdaáætlun næsta rekstrarárs var lögð fram og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum eftir nokkrar umræður. Meðal annars var spurt um ástæðu þess að áætlun er hærri en væntanlegar tekjur. SSJo svaraði því til að stjórn hefði heimild aðalfundar til að innheimta sérstakt framkvæmdagjald sem ekki hefði enn verið gert. Það var einnig spurt um kostnað hreppsins og félagsins vegna hliða-uppsetningar. Hreppurinn greiðir alfarið fyrir annað hliðið og talið líklegt að það komi til með að kosta langt á þriðju milljón. Hitt hliðið sem sett verður upp á kostnað félagsins er talið koma til með að kosta upp undir tvær milljónir og munar þar um talsverðar breytingar á vegum á kostnað hreppsins. Ekki liggur fyrir ákvörðun stjórnar um það hvort ráðist verður í uppsetningu hliðs inn á svæði 1 á þessu ári eða næsta.
Stjórn félagsins lagði til að árgjald ársins 2021 yrði hækkað í kr. 30.000. Var sú tillaga borin upp af fundarstjóra og var hún samþykkt mótatkvæðalaust.
Síðast liður aðalfundar voru tillögur að breytingum á samþykktum félagsins sem kynntar voru í aðalfundarboði.
Tillaga að breytingum á 11. gr. samþykkta var samþykkt samhljóða.
Tillaga að breytingum á 16. gr. samþykkta var samþykkt samhljóða, með fyrirvara um lögmæti og skilyrði þess að breyta samþykktum.
Eftir kaffihlé var opnað fyrir önnur mál. Jón Bjarnason hafði óskað eftir upplýsingum frá Landssambandi sumarhúsaeigenda og fengið. Hann lagði til að Norðurnes yrði áfram aðili að LSS en við greiðum núna alls kr. 120.000 á ári. Allnokkur rökstuðningur fylgdi gögnum frá félaginu um ágæti samtakanna.
Jón Snædal fundarstjóri beindi því til stjórnar að fá lögfræðiaðstoð vegna framkominna breytinga á samþykktum sem samþykktar voru með fyrirvara um lögmæti.
Rætt var um brunavarnir og hefur Björgvin (33) rekist í því máli að kaupa sinu-klöppur. Hann hefur fengið Hafþór (76) til að aðstoða við að koma klöppunum upp á grind eða stoð þar sem þær blasa við og hægt að ná í þær ef þörf krefur. Félagsmenn voru eindregið hvattir til að kaupa svona sinu-klöppur einnig og þannig eiga nóg af þessu. Einnig var rætt að enginn aðgangur er að vatni á svæðinu og engir brunahanar.
Árni formaður upplýsir að rafmagn í hliðið inn á svæði 2/3 komi úr hans inntaki og hreppurinn greiði fyrir lagningu rörs/strengs að hliðinu.
SSJo gerði stutta grein fyrir hliðmálum og sýndi tillögur, bæði gamlar og nýjar. Björgvin upplýsti að efniskostnaður vegnar girðingar sé um kr. 500 á hvern metra að jafnaði.
Í lok fundar greindi SSJo frá stöðu vatnsveitunnar og samskiptum við landeigendur vegna framkvæmda við vatnstökustað í Trönudalsá. Í ljósi þess að hreppurinn er að kosta talsvert miklu í að greiða götu okkar með læst hlið inn á svæðið þá var ákveðið að bíða með að óska eftir aðstoð hreppsins við að ljúka vatnsveitumálinu.

Að síðustu urðu umræður um gámamál og fyrirhugaða sorpflokkunarstöð. Nýjustu tíðindi er þau að hreppurinn virðist hafa fallið frá áformum um að setja upp slíka flokkunarstöð við vegamót Meðalfellsvegar og hyggst í staðinn bæta aðstöðu og aðgengi á flokkunarstöð við Hurðarbaksholt.

Jón Snædal sleit fundi um klukkan 21.30

Fundargerð ritaði Sigurður Sveinn Jónsson.