Stjórnarfundur
Jun 12 '19


Fundur í stjórn sumarhúsafélagsins í Norðurnesi í Kjós. 12-06-2019/ssjo

Allir í stjórn félagsins voru mættir; Jón Bjarnason, Sveinn Val, Geir Hauksson, Björgvin Hauksson og Sigurður Sveinn Jónsson sem ritaði fundargerð. Fundurinn var haldinn heima hjá Jóni að Mosabarði 16 og hófst klukkan 20:00. Dagskrá fundarins var birt í fundarboði:

Brunavarnir og eldhætta

Eins og komið hefur fram í fréttum eru víða miklir þurrkar á SV landi og gróður því þurr og hætta á að eldar breiðist úr ef þeir ná að kveikna. Helsta hættan á íkveikju er vegna ógætilegrar meðferðar elds í opnum eldstæðum, einnota grillum, glóðar  í sígarettum og annarrar þess konar. Nauðsynlegt er að brýna fyrir fólki að fara sérstaklega varlega með eld á svæðinu og tryggja að eldur kveikni ekki í gróðri. Sérstaklega skal á það bent að samkvæmt brunavarnaráætlun sem gerð var af slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er útkallstími slökkviliðs um 40-50 mínútur (úr Mosfellsbæ). Þá er tekið fram í áætluninni og áhættumati að enginn búnaður né mannskapur sé til slökkvistarfs í Kjósinni og því einungis hægt að reiða sig á tækjakost bænda í sveitinni til fyrstu viðbragða (haugsugur og þess háttar). Aðgæsla og aðgát er því besta forvörnin.

Öryggismál

Brotist var inn í einn bústað fyrir nokkrum vikum síðan. Húseigandi tilkynnti innbrotið til lögreglu og mættu lögreglumenn á svæðið til skýrslutöku. Ef til vill þarf að taka göngubrúna sem er við ræsið í gilinu og inn á svæði 2 vestanvert en sýnt þykir að þeir sem brutust inn hafa lagt bíl niðri í gili og farið yfir stigann og að húsinu þaðan.

Vegamál

Rætt var um aðgerðir sem gripa þarf til vegna ástands vega á svæðinu. Ljóst er að vegurinn inn á svæði 3 hefur látið nokkuð á sjá vegna umferðar stórra vörubíla og beltagröfu á vegum Jóns hjá Tönninni ehf. sem vann að vegalagningu fyrir lóðareigendur vestan við Trönudalsá, á lóðum Lækur 5, 6 eða 7. Ristarhliðið er bogið og dældað. Ekki var óskað eftir leyfi félagsins til þessara flutninga tækja og efnis né heldur var fengið leyfi lóðareiganda þar sem vegslóði liggur niður að efnistökustað í farvegi Svínadalsár. Er talið tilefni til að vekja máls á þessu við Jón verktaka og eiganda hjá Tönninni ehf. og fara fram á það að verkbeiðandi afli nauðsynlegra leyfa til umferðar stórra og þungra tækja um vegi félagins og um lóðir í einkaeigu.

Sveinn Val hefur verið í sambandi við Ólaf verktaka (sem lagaði veginn frá Meðalfellsvegi og upp að gatnamótum við veg að svæði 1 árið 2018) og hefur hann gefið verðhugmynd um lagfæringar á veginum í gegnum svæði 2. Flutningar á efni og efniskostnaður er áætlaður 300-500.000. Aðili sem hefur verið með veghefill við vinnu í Kjósarskarði hefur einnig gefið kost á að vinna við að hefla veginn með ofaníburði og tekur hann kr. 30.000 á tímann fyrir hefilinn.

Fundurinn samþykkti að fela Sveini Val að ræða frekar við Ólaf og óska eftir því við hann að hann fari í verkið við fyrstu hentugleika. Einnig verður farið fram á það við Ólaf að hann hreinsi upp úr ristarhliðunum þrátt fyrir að það standi til að færa hliðið inn á svæði 2. Reynt verður að fá Kára í Norðurnesi 48 til ráðgjafar um nýtt hlið inn á svæði 2 sem yrði fært aðeins ofar í brekkuna en nauðsynlegt er að halda gamla hliðinu í lagi uns nýtt hlið verður sett upp. Íbúar í Norðurnesi eru lang frá því að vera duglegir við að loka hliðum á eftir sér og getur því sauðfé gengið óhindrað inn á svæðið meðan ristarnar eru fullar að drullu.

Eitthvað er að reiki hvort Jón hjá Tönninni ehf. er tilbúinn að vinna við vegagerð fyrir félagið. Sá sem er í sambandi við Jón er Einar á nr. 62 og verður farið fram á það við Einar að hann ræði við Jón hjá Tönninni ehf. og einhver niðurstaða verði fengin í það hvort hann ætlar að vinna við vegagerð fyrir félagið eða ekki. Verði þá fenginn annar öflugur verktaki til að taka að sér lagfæringar á aðalvegi.

Vatnsveita

Sigurður Sveinn og Björgvin lögðu fyrir fundinn greinargerð um ástand vatnsveitunnar og mælingar á afköstum. Þá var í þeirri greinargerð velt upp ýmsum kostum vegna framtíðaráforma um rekstur vatnsveitu á svæðinu í Norðurnesi. Ljóst er að vatnsveitan eins og hún er núna annar ekki þörfum og eins og íbúar þekkja hefur verið skortur á vatni. Neyðarveitan sem sett var upp árið 2016 er þó að tryggja núna að íbúar hafa vatn, þótt það sé ekki ráðlegt að drekka það án þess að sjóða fyrst. Ef tryggja á nægt hreint vatn fyrir allt að 90 hús þá þarf að ráðast í talsverðar endurbætur á veitunni. Þær endurbætur felast aðallega í að setja upp hreinsbúnað (sótthreinsun) á vatninu og dælingu til að halda uppi nægum þrýstingi, sérstaklega á svæði 3 og syðri hluta svæðis 2.

Fundi slitið klukkan 21:45