Félagsfundur um hitaveitu
Mar 17 '16


Það var haldinn félagsfundur í gærkvöldi í Gerðubergi til að ræða um hitaveitu. Það var ágætis þátttaka og góðar umræður áttu sér stað. Ég vil þakka Róberti og Jóni Snædal fyrir að leiða fundinn og gera grein fyrir helstu atriðunum sem hafa komið fram um verkefnið.

Ég setti upp einfalda reiknivél hér á vefinn til að hjálpa fólki að sjá fyrir sér mismuninn á rafmagnshitun og hitaveitu. Kíkið á þessa síðu:

Reiknivél hitaveitukostnaðar

Kjósarveitur gáfu frest fram á 20. mars til að skila staðfestingu á þáttöku og við viljum hvetja alla til að senda þeim svarbréfið í dag eða á morgun, hvort sem svarið er 'já' eða 'nei'.

Eitt af því sem kom fram er að ef fólk svarar 'nei' en ætlar kannski að endurskoða þetta eftir einhver ár þá er gott að láta veiturnar vita af því þar sem það gæti einfaldað að tengja seinna.

Hérna eru nokkur atriði í sambandi við hitaveitu sem við ræddum í gær:

 • Tengigjald verður 888.000 kr. Auk þess þarf að gera ráð fyrir 1.200.000 kr í vinnu og efni. Það mun því kosta 2.1M+ að fá hitaveitu.
 • Það er hægt að borga tengigjaldið en að bíða með að tengjast og borga því ekki mánaðargjald fyrr en notkun byrjar.
 • Inntak verður á hemli með hámarksflæðu upp á 2 eða 3 l/mín
 • Mánaðargjald verður 9.820 kr fyrir 2 l/mín og 12.400 fyrir 3 l/mín
 • Kjósarveitur vonast til að mánaðargjaldið muni lækka í framtíðinni.
 • 2 l/mín gæti hentað 50fm bústöðum sem eru ekki með pott.
 • Hægt verður að hækka frá 2 l/mín í 3 l/mín með mánaðarfyrirvara og lækka frá 3 l/mín niður í 2 l/mín einu sinni á ári.
 • Það er svo líka hægt að fá meira en 3 l/mín.
 • Mæld notkun (eins og í bænum) er mjög ólík hemli. Með 3 l/mín er gert ráð fyrir 1-1.5 l/mín meðalrennsli yfir árið.
 • Bústaðir sem eru stærri en 300 rúmmetrar (u.þ.b. 100 fm) geta fengið mæli og borgað 1.4M tengigjald. Jón formaður er með þann kost en ætlar líklega að halda sig við hemilinn.
 • Sumarhúsaeigendur í Kjósinni þurfa að koma sér saman um áheyrnarfulltrúa í Kjósarveitum. Ef einhver í félaginu okkar er áhugasöm/-samur þá væri gott að heyra í viðkomandi.
 • Hitaveitan kemur í Norðurnesið í fyrsta lagi seinni part 2017. Það mun þurfa að greiða tengigjald 3 mánuðum áður en lagt er til okkar.
 • Ef hitaveitan fer uppí Norðurnes (meira en 60% þátttaka) þá mun fólk geta tengst síðar og borgað raunkostnað við þá tengingu. Sá kostnaður verður alltaf meiri en þessar 888.000 sem við borgum nú.
 • Það þarf að leysa kalda vatnið í Norðurnesinu sem fyrst og það verður rætt á aðalfundinum í apríl. Hreppurinn mun ekki koma beint að framkvæmdinni þrátt fyrir að eiga allmargar lóðir á svæði 3 en hyggst setja kvöð á seldar lóðir til að borga sinn hlut.
 • Að fá hitaveitu mun auka verðgildi eignar og gera hana söluvænni en mun getur tekið langan tíma að borga sig upp.
 • Við þurfum svo að ræða meira um vegina á aðalfundinum og hvað við viljum gera til að svæðið sé aðgengilegra yfir vetrarmánuðina.

Smá persónulegt innlegg hér að neðan:

Það virðist vera almenn ánægja með fundinn sem Kjósarveitur hélt á þriðjudag og það er greinilegt að þau taka athugasemdir frá sumarhúsaeigendum alvarlega og hafa gert breytingar á verðskrá eftir því.

Það er eitt sem hefur komið mikið upp, og það er að fólk er að bera saman núverandi rafmagnsreikning og sjá að það borgi sig ekki að taka hitaveitu.

Það er erfitt að bera saman kostnað við rafhitun þar sem bústaðurinn er hafður kaldur 3/4 af árinu og notaður svo kannski í 3 mánuði um sumarið. Ég vona að reiknivélin að ofan hjálpi eitthvað með það en aðal atriðið er að ef fólk fer í bústaðinn sinn kannski 6 sinnum á ári og er alveg sama um að vefja sig inní teppi á meðan hann hitnar þá er kannski ekkert sniðugt að fá sér hitaveitu. Hinsvegar ef fólki langar í heitann pott og vill að bústaðurinn sé alltaf heitur og fínn, og vilja fá í heimsókn ættingja sem eru vanir nútímaþægindum eða eru jafnvel að spá í að selja þá horfir dæmið öðruvísi við.

Ég legg til að þegar dæmið er reiknað skulum við hugsa meira um hvernig við viljum nota bústaðina okkar í framtíðinni frekar en hvernig við erum að nota þá akkúrat í dag. Þetta er svolítið eins og þegar það var fyrst tengt rafmagn í hverfið eða kalt vatn. :-)

Sumsagt, þið skuluð endilega fylla út annað hvort blaðið frá kjósarveitum og henda því í póstkassa hvort sem þið ætlið að taka hitaveitu eður ei.

 - Nonni