Fréttir

Fréttir frá árinu 2016 ( 41 fréttir fundust )

Snjómokstur yfir hátíðirnar
21. des. 2016 12:48

Sælt veri fólkið,

Snjómokstursnefndin var að funda og það var ákveðið að fara ekki í sérstakar snjómokstursaðgerðir fyrir jól heldur að halda því opnu eftir aðstæðum. Veðrið er svo rólegt að við erum að vona að það þurfi ekki snjóruðning að svo stöddu.

Ef það eru einhverjir sem kíkja uppeftir og finnst færðin slæm þá skuluð þið hringja í Einar í síma 896-3207 og hann athugar hvort ekki sé hægt að fá Sigurð á Hrosshóli á staðinn í mokstur.

Einnig væri gaman í að heyra í fólki á fésbókinni um hvernig aðstæður eru ef einhver skildi vera uppfrá í vikunni.

Kv,

 - Stjórnin

Vinsamlegast læsið hliðum
07. des. 2016 18:59

Eitthvað hefur borið á því að ekki sé verið að læsa hliðum inn á svæðin og stjórninni var í þessu meðal annars að berast ábending um þessum málum væri sérstaklega ábótavant á svæði 2.

Hafið í huga að hlið inn á svæðin eiga alltaf að vera læst yfir vetrarmánuðina.

Stjórnin

Rauntímamyndavél í norður
12. nóv. 2016 19:22

Ég bætti nýju norðurmyndavélinni á Rauntímasíðuna.

Nú er hægt að horfa á óveðrið bæði í suður og norður. :-)

Ný myndavél
15. okt. 2016 16:18

Það er búið að setja upp nýja útimyndavél í nr. 74 sem bendir í norður. Það er mikill gæðamunur á þessari og þeirri gömlu auk þess sem nýja vélin var sett upp í þónokkuð meiri hæð þannig að hún horfir vel yfir umhverfið.

Við vonum að þetta sé velkomin nýjung fyrir íbúana okkar. Kíkið yfir á myndavélasíðuna til að líta á myndirnar úr gripnum.

Fyrsta næturfrostið
27. sep. 2016 08:38

Það varð örlítið frost í nótt til að minna okkur á að veturinn sé á leiðinni. Við ráðleggjum fólki að huga að því sem ekki má frjósa, t.a.m. matur í útigeymslum.

Fjölskylduskemmtun á Kaffi Kjós
30. júl. 2016 13:01

Árleg fjölskylduskemmtun á Kaffi Kjós um verslunarmannahelgina!

Dagskrá hérna.

 

Vatnsveita.
28. júl. 2016 11:41

Nýja vatnsveitan er tilbúin og verður tengd á morgun föstudaginn 29.júlí

 

Þegar eldri tankurinn var tæmdur í vikunni fóru á stað moldaróhreinindi sem safnast hafa í stofnleiðsluna í gegnum árin.Nú er loksins hægt að hreinsa tankinn í gegnum aftöppun sem sett var á stofnleiðsluna. Það má alveg búast við einhverjum moldarlit á næstunni á meðan kerfið er að jafna sig.Þegar neysla (rennsli) hefur verið lítið mánuðum saman, en svo t.d. heitavatnspottur fylltur ,getur losnað um óhreinindi í leiðslum. Þess má geta þegar farið var ofan í tankinn fyrir 2 árum kom í ljós að hann var loðinn að innan af fínu moldarryki. Tankurinn hefur aldrei verið hreinsaður. Vonandi verður fullt af sjálfboðaliðum til að halda þessari vatnsveitu í lagi. Ekki bara fólk  kvarti og krefjist þess að allt sé í lagi.

Að mínu áliiti væri það einnar messu virði, þegar búið verður að skúra gamla tankinn að innan og skola hann út í gegnum aftöppun á stofnleiðslunni sem er fyrir ofan hverfið að velja einhvern dag og skylda eigendur til að mæta í sumarbústaðinn og að ALLIR sturti niður og opni krana á sama tíma í góða stund. En við það ættu óhreinindi sem hafa safnast saman í gegnum árin að losna.

Til að byrja með væri ráðlegt að sjóða neysluvatn.

Kveðja Benedikt #1

Brenna um verslunarmannahelgina
27. júl. 2016 15:35

Nú er komið að hinni árlegu brennu sumarhúsafélags Norðurness laugardaginn 30. júlí.

Kveikt verður í brennunni klukkan 20.

Sjáumst hress :)

Tilkynning frá gjaldkera
25. júl. 2016 21:46

Í lok næstu viku verða útistandandi árgjöld og framkvæmdagjöld send til innheimtu hjá innheimtufyrirtæki með tilheyrandi kostnaði fyrir þá sem skulda.  Þetta fyrirkomulag var kynnt á síðasta aðalfundi félagsins.

Skora á þá sem enn hafa ekki gengið frá greiðslu að gera það áður en til innheimtu kemur.

Kveðja,
Sjonni

Hjálp við vatnsveitu
24. júl. 2016 13:59

Félagar,

Það gengur vel að koma niður vatnsveitunni en Einar og Benni þurfa aðstoð við að loka skurðinum. Grafan sér um erfiðisvinnuna en það þarf aðeins að hjálpa til hér og þar.

Ef einhverjir geta verið uppfrá með skóflu í fyrramálið, mánudag endilega að hafa samband við Einar í síma 896-3207.

 

Kátt í Kjós
14. júl. 2016 15:31

Minnum á Kátt í Kjós hátíðina sem verður haldin laugardaginn 16. júlí. Dagskráarbækling er hægt að nálgast hér.

Rollur og hliðin okkar
02. júl. 2016 11:58

Sælir íbúar í Norðunesi,

Eins og margir vita hafa rollur gert sig heimakærar á svæðinu okkar.   Þær hafa komist upp á lag með að fara yfir hliðin okkar sem eru ekki í góðu ásigkomulagi.  Nauðsynlegt er að hreinsa undan þeim jarðveg sem þar hefur safnast fyrir í gegnum árin.

Til stóð að fá Jón Tap í verkið samhliða vatnsframkvæmdum og endurbótum á veg sem áttu að hefjast í byrjun júní.  Það hefur hins vegar dregist talsvert og erfitt er að segja nákvæmlega til um hvenær sú vinna hefst.

Illa hefur gengið að fá aðra verktaka í þetta verkefni sem flestir eru að vinna við nýju hitaveituna.  Aðeins einn aðili var reiðubúinn að vinna þetta fyrir félagið en kostnaðaráætlun hans þótti full há (2-3 hundruð þúsund) auk þess sem tímasetning var óljós.

Til að bregðast við þessum vanda munum við tímabundið setja upp girðingarhlið sem hægt er að strengja yfir grindarhliðin.  Hugmyndin er að hafa þau lokuð þegar lítil umferð er um hliðin (td. yfir nóttina og í miðri viku).  Þetta er að sjálfsögðu bara bráðabirgðalausn þar til varanleg lausn er fundin.

Kveðja,
Sjonni gjaldkeri

Gróðurdagurinn í dag
18. jún. 2016 16:25

Í dag komu 14 félagar saman og tóku til hendinni við að færlægja Kerfil og til að halda aftur af Lúpínunni með því að slá hana. Það sést vel á svæðinu að hér hefur verið hörkuduglegt fólk að störfum. Enn er þó mikið eftir af Lúpínu og Kerfli á svæðinu og er það eitthvað sem tekið verður fyrir á næsta ári, sé áhugi fyrir því.

Takk fyrir skemmtilegan gróðurdag Norðunesinu og áfram Ísland 😀 ⚽️

 

Gróðurdagur 18. júní
15. jún. 2016 00:31

Kæru Norðnesingar.

Næsta laugardag 18 júni verður haldin gróðurdagur í Norðurnesi sem hugsaður er til að hægja á dreifingu á Lúpínu og Kerfli hér í hverfinu. 

Félagið getur lánað ykkur sem hafið áhuga á, slátturorf sem þið getið haft til afnota um næstu helgi( frá föstudegi - sunnudags). Á laugardeginum hittumst við um hjá brennunni kl 11, berum saman bækur og sláum kerfil og lúpínu á almennum svæðum eða þar sem þess er óskað. Við bjóðum síðan upp á hressingu og allir verða lausir kl 14 þegar EM svítan byrjar :)

Til þess að getað lánað öllum sem vilja, þá þurfum við að vita hversu margir hefðu áhuga á að fá slátturorf lánað.

Einnig viljum við endilega fá að vita ef þið óskið eftir að slegið verði á ykkar lóð.

Endilega látið mig vita sem fyrst með því að senda mér sms eða hringið í mig í síma 820-8110.  Í von um góða þátttöku og viðbrögð frá ykkur.

Kveðja Anna Vala 

Reikningur fyrir vatnsveituframkvæmdum
30. maí 2016 23:07

Kæru félagar,

Það var sendur út reikningur í dag fyrir vatnsveituframkvæmdum sumarsins. Reikningurinn er merktur "framkvæmdargjald" í heimabankanum og hljóðar upp á 32.000 kr á lóð. Eindagi er 14. júní.

Sjá fundargerð aðalfundar fyrir frekari upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir.

 - Stjórnin

Lúpínuhreinsunardagur
25. maí 2016 08:29

Nú er lúpínan byrjuð að blómstra í Norðurnesinu. Eins og var samþykkt einróma á síðasta aðalfundi þá eru þessar plöntur ekki æskilegar í flórunni í Norðurnesinu og við ætlum að reyna að halda henni í skefjum eins og unnt er.

Það er oft nokkuð auðvelt að tosa hana upp með rótum svona snemma sumars, að minnsta kosti nýjar plöntur og við ætlum að biðja fólk um að gera það við hvert tækifæri þegar rölt er um svæðið.

Það verður svo lúpínuhreinsunardagur hjá okkur í júnímánuði, líklega 18. júní sem Anna Vala í nr. 15 er að skipuleggja. Við munum þá koma saman sem flest með sláttarorf, skóflur og kerrur og vinna í lúpínunni og kerflinum. Þetta verður auglýst betur síðar.

Það eru sumar lóðir sem eru með mikilli lúpínu og við gerum ráð fyrir að það sé ekki samkvæmt vilja lóðareiganda heldur bara eitthvað sem gerist. Við ætlum okkur að reyna að hreinsa þetta upp nokkuð óháð lóðarmörkum því ekki virðir hún lóðarmörk sjálf en ef einhver vill alls ekki missa lúpínuna úr landinu sínu þá þarf að senda póst á stjórn eða láta Önnu vita.

Við vonum að okkur takist að halda þessu eitthvað niðri svo að jurtaflóran í Norðurnesinu verði ekki eins einsleit og hún er að verða á mörgum stöðum á landinu.

Hérna eru mjög góðar upplýsingar um lúpínu.

Kveðja,

- Stjórnin

Vatnsveita
19. maí 2016 08:08

Kæru félagar, ekki er það blessuð hitaveitan í þessum skilaboðum heldur smá fréttir af kaldavatnsveitunni.

Vatnsstrákarnir okkar, Benni, Martin og Einar eru búnir að vera að vinna mikla forvinnu nú þegar en líklegt er að framkvæmdir við að leggja nýju kaldavatnslögnina hefjist í næsta mánuði.

Til upprifjunar þá er hér smá yfirlitsmynd. Það verður farið í Trönudalsánna og tengt inná gömlu lögnina svona 100m fyrir neðan gömlu lindina. Þar verður þrýstiloki sem stýrir sjálfvirkt rennsli þannig að ef tankurinn við gömlu lindina tæmist þá hefst rennsli úr Trönudalsánni í staðinn. Þetta þýðir að svona fyrst um sinn getum við gert ráð fyrir því að drekka vatn úr Trönudalsá í ágústmánuði.

Vatnsgæðin ættu að vera góð enda verður gengið frá þessu á svipaðan hátt og gengur og gerist í bæjarfélögum hér og þar á landinu.

Við munum senda út greiðsluseðla í heimabankana hjá okkur um mánaðarmótin og hver lóð mun greiða 32.000 kr. Því er heildar greiðsla til verktaka sem félagið stendur fyrir u.þ.b. 2M kr.

Hafið í huga að framkvæmdin sjálf ætti í raun að kosta þónokkuð meira en þetta því það er svo mikil vinna innt af hendi af ofantöldum sérfræðingum sem eru meðlimir félagsins. Sem betur fer gefa þeir félaginu vinnu sína og fá þeir kærar þakkir fyrir. Án þessara herramanna væri þessi framkvæmd líklegast ekki raunhæf.

Meira um hitaveitu
09. maí 2016 10:55

Kæru meðlimir,

Ég minntist á að það væri 2 ár í að þetta yrði lagt til okkar en ég var eitthvað í fortíðinni. Það verður farið uppeftir í Norðurnesið eftir rúmlega eitt ár, eða líklega síðla sumars 2017.

Samkvæmt nýrri frétt á kjósarvefnum sýnist mér að við getum gert ráð fyrir eindaga fyrir inntökugjaldið 888þ kr þann 1. ágúst 2017.

Í sömu frétt er talað um lán Arion banka en þeir bjóða sérstök kjör á frístundaláni sem hljóðar upp á 50% afslátt á lántökugjaldi, þeas 1% í stað 2%. Þetta er sjálfsagt allt í lagi tilboð en ef viljið frekar taka lán hjá öðrun banka mætti alveg spyrja hvort þeir vilji ekki gefa sama afslátt.

Fyrir þá sem eiga eftir að svara (eða vilja breyta svari sínu). Takið eftir að það þarf ekki að senda svar í pósti. Það er einfaldlega hægt að ná í skráningarblaðið hérna, prenta út, skrifa undir og skanna inn (eða taka ljósmynd með símanum). Senda svo á kjosarveitur@kjos.is. Fyrir suma er það etv. einfaldara heldur en að fara með þetta í póst.

Frekari upplýsingar eru í fréttinni frá Kjósarveitum.

Kv,

- Nonni

Staða hitaveitulagnar
05. maí 2016 18:16

Kæru félagar,

Eins og kom fram á aðalfundinum nú fyrir skemmstu þá lítur ekkert sérstaklega vel út með hitaveitu í Norðurnesinu.

Það eru ekki nema 15 eigendur af 47 búnir að segjast ætla að taka hitaveitu. Þetta hlutfall er langt fyrir neðan það lágmark sem Kjósarveitur hafa gefið út til að stofnlögn verði lögð. Ef það verður ekki lögð stofnlögn þá mun hitaveita aldrei verða lögð í Norðurnesið og við verðum líklega eina sumarhúsahverfið í Kjósinni án hitaveitu.

Það hafa 16 eigendur sagt nei og þar af nokkrir sem hafa sagt 'nei, en seinna'. Svo eru 16 að auki sem hafa ekki svarað.

Ég vil hvetja þá sem hafa ekki svarað bréfinu frá Kjósarveitum að senda þeim svar þrátt fyrir að fresturinn hafi runnið út. Þau vilja endilega fá að heyra í ykkur. Það er líka hægt að senda tölvupóst á Sigríði Klöru á sigridur@kjos.is. Hvort sem svarið er já eða nei þá vil ég endilega biðja ykkur um að senda svar, og þetta á líka við um þau ykkar sem eru bara með lóðir.

Fyrir þá sem hafa kosið nei en ætla sér að taka þetta inn seinna þá get ég sagt ykkur að það verður að öllum líkindum ekki hægt. Ef það eykst ekki verulega mikið jákvæð svörun þá verður einfaldlega ekki lögð stofnlögn upp í Norðurnesið og það verður ekki hægt að fá hitaveitu seinna.

Hérna eru nokkur atriði sem gætu hafa verið misskilin eða fólk veit ekki af:

 • Hitaveita verður ekki lögð til okkar fyrr en eftir 2 ár.
 • Það þarf ekki að borga stofngjald fyrr en eftir 2 ár þegar þetta er lagt.
 • Fólk þarf ekki að taka hitaveituna inn, það er hægt að borga stofngjaldið en tengja svo húsið hvenær sem er seinna.
 • Það þarf ekki að borga mánaðargjald fyrr en fólk hefur látið tengja.
 • Arion banki mun bjóða upp á einföld og þægileg lán fyrir þessu.
 • Kaldavatnsveitu-vandræðin hjá okkur verða leyst áður en hitaveitan kemur.

Mér finnst mjög athyglisvert að hugsa til þess að Norðurnesið gæti verið í þeirri sérstöðu í Kjósinni að verða eina svæðið án hitaveitu. Ég vona svo sannarlega að fólk átti sig á þessu og hvað þetta þýðir fyrir framtíð okkar svæðis. Þetta mun t.d hafa veruleg áhrif á endursölumöguleika.

Hérna er smá samantekt á svarmöguleikunum:

Ef þú svaraðir : Frábært, en því miður þá lítur þetta ekki vel út. Það er samt ekkert meira sem þú getur gert.

Ef þú svaraðir Nei, en kannski seinna: Því miður, þetta er bara það sama og nei.
Ef þú hefur einhver tök á að breyta svari þínu í þá myndi ég íhuga það nema ef þú getir séð fyrir þér að fá aldrei hitaveitu.

Ef þú svaraðir Nei: Ertu viss um að þú eða börnin þín viljið aldrei fá hitaveitu í bústaðinn? Er ekki möguleiki að bústaðurinn yrði seldur í framtíðinni? Það verður erfitt að selja bústað án hitaveitumöguleika í Kjósinni þar sem allir aðrir eru með aðgang að hitaveitu. 

Ef þú hefur ekki svarað og ert óviss: Svarið þitt er Nei enn sem komið er. Ef þú ert ennþá að hugsa um þetta þá skaltu tala við Siggu Klöru. Ef þú sérð fyrir þér að vilja fá hitaveitu í framtíðinni þá myndi ég vilja hvetja þig til að taka þátt því annars missirðu (og við öll) af tækifærinu endanlega. 

Ef þú hefur ekki svarað en ert viss um að vilja þetta ekki: Endilega gerðu okkur hinum þann greiða að svara bréfinu eða senda Kjósarveitum póst. Það er betra fyrir okkur að vita hvar við stöndum. Mundu samt að ákvörðunin gæti verið endanleg fyrir bústaðinn eða lóðina þína.

Þið verðið að afsaka þetta röfl í mér en þetta er bara nokkuð krítískur tími fyrir litla samfélagið okkar. Ég efast ekki um það að eftir tuttugu ár þá finnist fólki í Kjósinni fyndið að hugsa til þess tíma þegar það var engin hitaveita, alveg eins og okkur finnst sumum fyndið að hugsa til þess tíma þegar það var ekkert rafmagn.

Til upprifjunar þá er hérna fundargerðin frá félagsfundinum okkar þar sem rætt var um hitaveitu.

 - Nonni

Fundargerð frá aðalfundi 2016
03. maí 2016 09:05

Fundargerð frá aðalfundi 27. apríl 2016 er komin á vefinn. Hún er aðgengileg hérna.

Önnur skjöl sem farið var í gegnum á fundinum eru aðgengileg í nýrri síðu undir Félagið -> Skjöl.

Á næstu vikum verða svo sendar út fréttir vegna hinna ýmsu stóru mála sem rætt var um á aðalfundinum.

Það var frábært að sjá hversu góð mæting var á aðalfundinn. Stjórnin vill svo þakka fráfarandi stjórnar- og nefndarfólki og bjóða nýtt fólk velkomið í hinar ýmsu nefndir.

 - Stjórnin

Fréttir af aðalfundi 2016
01. maí 2016 10:26

Aðalfundur var haldinn fyrir skemmstu, miðvikudaginn 27. Apríl. Þátttaka var mjög góð; 38 mættu frá 36 lóðum og líklega var sett met í fjölda lóða á aðalfundi.

Helstu mál:

 • Mannabreytingar í stjórn. Nýr gjaldkeri og meðstjórnandi.
 • Ný lög samþykkt.
 • Vatnsveituframkvæmd fyrir 32.000 kr á lóð samþykkt. Gjalddagi er 1. júní.
 • Óbreytt félagsgjald, 15.000 kr. Gjalddagi er 1. maí.
 • Fáir ætla að taka hitaveitu og það lítur því ekki vel út með lagningu stofnlagnar.
 • Í sumar verða lögð skilti til leiðbeiningar um svæðið.
 • Félagið verður 40 ára 3. júní.
 • Halda þarf áfram með vegagerð. Félagsgjöld nægja fyrir því.
 • Samþykkt var að halda lúpínu og kerfli í skefjum.

Uppfærð lög og nefndir eru undir Félagið í valstikunni á vefsíðunni. Full fundargerð verður svo birt innan tíðar.

 - Stjórnin

Rafmagnsviðgerðir
29. apr. 2016 11:46

Frá rarik:

Raforkunotendur í Hvalfjarðarsveit og Kjós.
Rafmagnslaust verður tvisvar í næstu virku:
Fyrra straumleysið er aðfararnótt þriðjudagsins 02. maí frá kl. 00:00 til kl. 03:00.
Seinna straumleysið er aðfararnótt föstudagsins 06. maí frá kl. 00:00 til kl. 02:00 vegna frágangs verka og prófana.

Rarik biðst velvirðingar á óþægindum sem af þessu stafa. Bilanasími 5289390.

Bilanavakt Vesturlandi

Sími: 528 9390

bilanavakt.vesturlandi@rarik.is

Minnum á aðalfund
26. apr. 2016 08:55

Aðalfundur sumarbústaðafélagsins verður haldinn í kvöld, miðvikudaginn 27. apríl kl 20.00 í Gerðubergi.

Vonumst til að sjá sem flesta.

 - Stjórnin

Mál til kynningar fyrir aðalfund
22. apr. 2016 09:51

Kæru félagar,

Stjórnin mun leggja eftirfarandi mál fyrir aðalfund sem haldinn verður nk miðvikudag, 27. apríl í Gerðubergi kl 20.00

Framkvæmdir á vatnsveitu

Vatsnveitunefndin er búin að vera að velta fyrir sér ýmsum útfærsluleiðum til að bæta vatnakostinn í Norðurnesinu. Sú tillaga sem verður lögð fyrir fundinn mun líklega kosta um eða yfir 30.000 kr á lóð. Það verður mögulega greitt eitt fast gjald og svo eitthvað extra til vara sem rukkað verður ef þörf krefst.

Á fundinum verður lokatala komin fram og lögð til kosningar.

Vatnsveita er mikið hagsmunamál fyrir okkur öll og við efumst ekki um að það verði líflegar umræður um þetta. Við viljum hvetja sem flesta til að mæta til að hlusta á vatnsveitunefndina og taka þátt í ákvarðanatökunni.

Breytingar á lögum

Sjá fyrri frétt hér

Félagsgjöld

Stjórnin hyggst leggja til að félagsgjöld verði óbreytt frá því í fyrra, 15.000 kr á lóð. Það er jafnframt möguleiki að á næsta ári verði óskað eftir hækkun.

Það gekk örlítið brösulega að innheimta sum félags og framkvæmdargjöld á sl. rekstarári. Enn eru einhverjir sem hafa ekki greitt. Einhverjir hafa jafnvel ekki greitt félagsgjöld í fleiri ár.

Þetta tekur allt saman mikinn tíma hjá stjórnarmönnum og við erum áhugasöm fyrir því að setja rukkanir í fastara ferli með innheimtu þegar þörf er á. Gjalddagar og innheimtuferli verða rædd á fundinum.

Breytingar á stjórn

Sigurður (nr 13) og Rikki (nr 55) ætla ekki að gefa kost á sér í stjórn aftur. Við þökkum þeim góð störf í gegnum árin.

Það þarf því tvo nýja stjórnarmeðlimi. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við stjórnina fyrir fundinn.

Skilti og merkingar

Stjórnin leggur til að nöfnunum á svæðunum þremur verði breytt úr 'neðra, efra, efsta/nýja' í einfaldlega svæði 1, 2 og 3. Bústaður nr. 59 verður svo hluti af svæði 3 en var hluti af svæði 2 áður.

Rikki (nr 55) er búinn að bjóðast til að taka að sér að gera skilti og koma þeim upp. Það væri gott að fá einhvern með honum í þá vinnu. Þessi skilti munu vísa fólki á rétt svæði með húsanúmerum og einnig verða skilti á hverju hliði til að gefa til kynna að um einkaveg sé að ræða.

Vegavinna

Stjórnin er mjög ánægð með vinnuna sem var farið í síðasta haust og Einar Arason (nr 62) hlýtur miklar þakkir fyrir það frábæra starf sem hann hefur unnið.

Það þarf að halda áfram með vinnuna nú í sumar og klára nokkur útistandandi atriði. Þar með talið er að bæta við efni á nokkrum stöðum fyrir utan hlið, setja niður eitt rör á svæði 2 (efra svæði) og bæta skurði meðfram vegi.

Það verður ekki beðið um auka fjárútlát vegna vegagerðar en líklegt þykir að stór hluti félagsgjalda muni renna til þessa liðar.

Einar vill endilega fá álit fólks á framkvæmdum og umræðu um hvað ætti að gera og hvar. Endilega komið með tillögur á fundinn og ekki væri verra að hafa uppdrætti og/eða myndir máli til stuðnings.

Hitaveita

Það verður rætt á fundinum um svarhlutfall í Norðurnesi en stjórnin hefur fengið bráðabirgðatölur frá Kjósarveitum. Í stuttu máli sagt þá lítur það ekkert sérlega vel út með hitaveitu hjá okkur en það hafa alltof fáir sent inn svar hingað til.

Stjórnin vill, eftir samráð við Kjósarveitur, hvetja alla að svara bréfinu frá Kjósarveitum þrátt fyrir að fresturinn sé runninn út. Það er betra að svara 'nei' eða 'kannski seinna' frekar en að senda ekkert svar. Það er svo líklegt að fulltrúi Kjósarveitna muni byrja að hringja í fólk sem ekki hefur sent svarbréf til að fá svör.

Á fundinum mun stjórnin ræða aðeins um núverandi stöðu á verkefninu og svara spurningum.

Aðgengi að vetri

Það verður rætt um hvað sé hægt að gera til að bæta aðgengi að svæðinu yfir vetrarmánuðina, snjómokstur, gróður meðfram vegum og slíkt.

Óæskilegur gróður

Stjórnin hyggst leggja til atkvæðagreiðslu hvort vilji sé innan félagsins að halda kerfli og lúpínu í skefjum á svæðinu. Ef svo er þá verður óskað eftir áhugasömum til að fylgja því verkefni eftir.

Rollur inná svæðum

Í fyrra ollu rollur á svæðunum einhverju raski og virðast geta komist óhindrað yfir kindahliðin okkar. Stjórnin hefur rætt um hliðgrindur inná svæðin en það verður ekki kíkt á það á þessu ári. Sigurjón (nr. 15) ætlar að taka að sér að kíkja á núverandi kindahlið og athuga hvort eitthvað sé hægt að gera í sumar án mikils tilkostnaðar. Gott væri að fá einhvern með honum í þetta.

Vöktun

Síðastliðið haust var sett upp eftirlitsmyndavél við veginn inn Norðurnesið. Formaður segir aðeins frá þessu verkefni og rætt verður um hvort það séu einhver næstu skref hérna eða hvort félagar séu sáttir við núverandi fyrirkomulag.

Girðing og minni framkvæmdir

Það þarf að ganga meðfram girðingu og laga þar sem þarf eftir veturinn. Leitað verður eftir áhugasömum til að taka það að sér.

Einnig verður rætt um hvort það sé einhverra annarra minni framkvæmda þörf sem hægt er að vinna sem samvinnuverkefni meðal félagsmanna eins og að leggja göngustíga, litlar brýr o.s.frv.

Brennan

Brennan gekk mjög vel í fyrra og stjórnin þakkar Soffíu (nr. 61) og fjölskyldu fyrir að sjá vel um það. Við vonum að þau séu reiðubúin að endurtaka leikinn á þessu ári. Ef einhverjir hafa hugmyndir með brennuna eða tengda atburði þá getum við rætt það.

 

Þetta er ekki tæmandi listi yfir það sem verður rætt á fundinum en gefur ágætis yfirsýn yfir dagskránna. Við viljum hvetja alla sem hafa fleiri mál að ræða undir liðnum 'önnur mál' að undirbúa mál sitt og ekki væri verra að senda stjórninni upplýsingar um það fyrir fundinn.

Eins og venjulega höfum við margt að ræða og við þurfum að nýta tímann vel.

Við hlökkum til að sjá sem flesta á miðvikudaginn.

 - Stjórnin

Breytingar á lögum
14. apr. 2016 20:48

Kæru meðlimir,

Á aðalfundinum sem verður miðvikudaginn 27. apríl nk verða lögð fram ný lög sumarhúsafélagsins til samþykktar.

Ástæðan fyrir þessu er að núverandi lög eru orðin gömul og samræmast ekki að fyllu núverandi landslögum vegna sumarhúsabyggða.

Í stað þess að lappa upp á gömlu lögin var ákveðið að taka inn staðlaðar samþykktir frá Landssambandi Sumarhúsaeiganda. Hafa lögin svo verið staðfærð lítillega að okkar félagi.

Hérna eru nýju lögin sem verða tekin til samþykktar

Hérna eru gömlu lögin sem verða gerð ógild

Nýju lögin hafa verið yfirfarin af lögfræðingi frá Landssambandi Sumarhúsaeiganda. Það væri gott fyrir fólk að lesa þau yfir og mynda sér skoðanir fyrir fundinn.

Aðalfundur á næsta leyti
10. apr. 2016 21:38

Kæru meðlimir,

Stefnt er að halda aðalfund félagsins í lok mánaðarins, miðvikudaginn 27. apríl. Það verður sent út fundarboð bréfleiðis í vikunni og fundurinn verður svo einnig kynntur á vefnum.

Það eru allmörg málefni sem þarf að afgreiða. Þau mál sem stjórnin er komin með á sitt borð eru meðal annars:

 • Það verður lögð fram tillaga eða tillögur vegna fyrirhugaðra framkvæmda á kaldavatnsveitu sem gætu orðið kostnaðarsamar.
 • Það verða lögð fram til samþykktar ný lög félagsins sem samræmast drögum frá landssambandi sumarhúsaeiganda og standast landslög.
 • Kynntar verða vegaframkvæmdir ársins og meðlimum gefst tækifæri á að ræða um forgangsröðun og útfærslu. Miðað verður við að þessar framkvæmdir krefjist ekki aukafjármagns eins og í fyrra.
 • Rætt verður um aðgengi um vetur, gróður (þmt lúpínu), hitaveitu, ofl.

Stjórnin vill hvetja meðlimi til að koma til okkar sem fyrst þeim málefnum sem þau vilja ræða fyrir fundinn og leggja fram tillögur. Hægt er að gera það með því að senda tölvupóst á stjorn@nordurnes.is.

Kveðja,

Stjórnin

Byrjað að veiða í Meðalfellsvatni
03. apr. 2016 10:25

Frétt af visir.is

Meðalfellsvatn er kannski ekki þekkt fyrir neina mokveiði en samt er þetta eitt skemmtilegasta vorvatnið í nágrenni höfuðborgarinnar.

Það veiðist ágætlega í vatninu stærstan hluta af tímabilinu og því er að þakka dýpt vatnsins en það er 18 metra djúpt.  Þetta gerir það að verkum að vatnið hlýnar ekki jafn mikið og grunnri vötnin en þegar vötnin verða mjög hlý getur takan oft dottið niður.  Síðan er það þannig á vorin að fiskurinn í vatninu tekur oft vel þar sem hann hefur ekki verið miklu æti yfir veturinn og stekkur oft á straumflugurnar af mikilli græðgi.

[...]

http://www.visir.is/medalfellsvatn-for-vel-af-stad-um-helgina/article/2016160409701

Færðin er góð - Búið að skafa
22. mar. 2016 00:17

Í tilefni páskana þá fór Sigurður á Hrosshóli um svæðið okkar á mokaði burtu sköflum hér og þar. Það ætti að vera nokkuð vel fært inn á öll svæðin.

Hafið í huga að það þarf að fara varlega á fólksbílum því það er drullusvað hér og þar.

Takk Siggi og Einar!

Fundargerð frá félagsfundi
18. mar. 2016 09:36

Það var haldinn félagsfundur í gærkvöldi í Gerðubergi til að ræða um hitaveitu. Það var ágætis þátttaka og góðar umræður áttu sér stað. Ég vil þakka Róberti og Jóni Snædal fyrir að leiða fundinn og gera grein fyrir helstu atriðunum sem hafa komið fram um verkefnið.

Ég setti upp einfalda reiknivél hér á vefinn til að hjálpa fólki að sjá fyrir sér mismuninn á rafmagnshitun og hitaveitu. Kíkið á þessa síðu:

Reiknivél hitaveitukostnaðar

Kjósarveitur gáfu frest fram á 20. mars til að skila staðfestingu á þáttöku og við viljum hvetja alla til að senda þeim svarbréfið í dag eða á morgun, hvort sem svarið er 'já' eða 'nei'.

Eitt af því sem kom fram er að ef fólk svarar 'nei' en ætlar kannski að endurskoða þetta eftir einhver ár þá er gott að láta veiturnar vita af því þar sem það gæti einfaldað að tengja seinna.

Hérna eru nokkur atriði í sambandi við hitaveitu sem við ræddum í gær:

 • Tengigjald verður 888.000 kr. Auk þess þarf að gera ráð fyrir 1.200.000 kr í vinnu og efni. Það mun því kosta 2.1M+ að fá hitaveitu.
 • Það er hægt að borga tengigjaldið en að bíða með að tengjast og borga því ekki mánaðargjald fyrr en notkun byrjar.
 • Inntak verður á hemli með hámarksflæðu upp á 2 eða 3 l/mín
 • Mánaðargjald verður 9.820 kr fyrir 2 l/mín og 12.400 fyrir 3 l/mín
 • Kjósarveitur vonast til að mánaðargjaldið muni lækka í framtíðinni.
 • 2 l/mín gæti hentað 50fm bústöðum sem eru ekki með pott.
 • Hægt verður að hækka frá 2 l/mín í 3 l/mín með mánaðarfyrirvara og lækka frá 3 l/mín niður í 2 l/mín einu sinni á ári.
 • Það er svo líka hægt að fá meira en 3 l/mín.
 • Mæld notkun (eins og í bænum) er mjög ólík hemli. Með 3 l/mín er gert ráð fyrir 1-1.5 l/mín meðalrennsli yfir árið.
 • Bústaðir sem eru stærri en 300 rúmmetrar (u.þ.b. 100 fm) geta fengið mæli og borgað 1.4M tengigjald. Jón formaður er með þann kost en ætlar líklega að halda sig við hemilinn.
 • Sumarhúsaeigendur í Kjósinni þurfa að koma sér saman um áheyrnarfulltrúa í Kjósarveitum. Ef einhver í félaginu okkar er áhugasöm/-samur þá væri gott að heyra í viðkomandi.
 • Hitaveitan kemur í Norðurnesið í fyrsta lagi seinni part 2017. Það mun þurfa að greiða tengigjald 3 mánuðum áður en lagt er til okkar.
 • Ef hitaveitan fer uppí Norðurnes (meira en 60% þátttaka) þá mun fólk geta tengst síðar og borgað raunkostnað við þá tengingu. Sá kostnaður verður alltaf meiri en þessar 888.000 sem við borgum nú.
 • Það þarf að leysa kalda vatnið í Norðurnesinu sem fyrst og það verður rætt á aðalfundinum í apríl. Hreppurinn mun ekki koma beint að framkvæmdinni þrátt fyrir að eiga allmargar lóðir á svæði 3 en hyggst setja kvöð á seldar lóðir til að borga sinn hlut.
 • Að fá hitaveitu mun auka verðgildi eignar og gera hana söluvænni en mun getur tekið langan tíma að borga sig upp.
 • Við þurfum svo að ræða meira um vegina á aðalfundinum og hvað við viljum gera til að svæðið sé aðgengilegra yfir vetrarmánuðina.

Smá persónulegt innlegg hér að neðan:

Það virðist vera almenn ánægja með fundinn sem Kjósarveitur hélt á þriðjudag og það er greinilegt að þau taka athugasemdir frá sumarhúsaeigendum alvarlega og hafa gert breytingar á verðskrá eftir því.

Það er eitt sem hefur komið mikið upp, og það er að fólk er að bera saman núverandi rafmagnsreikning og sjá að það borgi sig ekki að taka hitaveitu.

Það er erfitt að bera saman kostnað við rafhitun þar sem bústaðurinn er hafður kaldur 3/4 af árinu og notaður svo kannski í 3 mánuði um sumarið. Ég vona að reiknivélin að ofan hjálpi eitthvað með það en aðal atriðið er að ef fólk fer í bústaðinn sinn kannski 6 sinnum á ári og er alveg sama um að vefja sig inní teppi á meðan hann hitnar þá er kannski ekkert sniðugt að fá sér hitaveitu. Hinsvegar ef fólki langar í heitann pott og vill að bústaðurinn sé alltaf heitur og fínn, og vilja fá í heimsókn ættingja sem eru vanir nútímaþægindum eða eru jafnvel að spá í að selja þá horfir dæmið öðruvísi við.

Ég legg til að þegar dæmið er reiknað skulum við hugsa meira um hvernig við viljum nota bústaðina okkar í framtíðinni frekar en hvernig við erum að nota þá akkúrat í dag. Þetta er svolítið eins og þegar það var fyrst tengt rafmagn í hverfið eða kalt vatn. :-)

Sumsagt, þið skuluð endilega fylla út annað hvort blaðið frá kjósarveitum og henda því í póstkassa hvort sem þið ætlið að taka hitaveitu eður ei.

 - Nonni

Vel mætt á hitaveitufundinn
16. mar. 2016 19:54

Af vef kjósarhrepps:

Virkilega góð mæting var á kynningar- og umræðufund Kjósarveitna um hitaveitumál, sem haldinn var í Félagsgarði í gærkvöldi.

Kynninguna sjálfa má finna HÉR  

 

Félagsfundur um hitaveitu á fimmtudag
15. mar. 2016 18:39

Frá Róberti í hitaveitunefndinni:

Fundur sumarbústaðaeigenda í Norðurnesi verður haldinn um hitaveitumál fimmtudaginn 17.mars n.k. kl. 20.00 í Gerðubergi, Breiðholti. Á fundinn hefur verið boðið fulltrúum frá sumarhúsaeigendum í Eilífsdal og við Meðalfellsvatn og ef til vill verða aðrir sumarbústaðaeigendur í Kjósinni boðið líka.

 - Hitaveitunefndin

Umræðufundi frestað vegna veðurs
11. mar. 2016 17:09

Stjórn Kjósarveitna var að funda nú fyrir skömmu og tók ákvörðun að fresta vegna veðurs fyrirhuguðum kynningar- og umræðufundi um hitaveitumál í Kjósinni, sem vera átti í Félagsgarði á morgun, laugardag 12. mars.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/11/mjog_slaemu_vedri_spad_a_morgun/

Fundurinn verður haldinn þriðjudagskvöldið 15. mars kl. 20 í Félagsgarði  

http://kjos.is/allar-frettir/nr/201277/

Umræðufundur um hitaveitu á laugardag
10. mar. 2016 09:00

Minnum á umræðufundinn á laugardag. Hérna er fréttin frá Kjos.is

Laugardaginn 12. mars kl. 14:00 í Félagsgarði, verður kynningar- og umræðufundur um væntanlega hitaveitu í Kjósinni.

Stjórn Kjósarveitna hefur ákveðið að lengja svarfrestinn vegna þátttöku til 20. mars nk.

Þessa dagana er verið að safna saman og flokka fyrirspurnir sem borist hafa til veitunnar í kjölfar þátttöku skuldbindinga sem sendar voru út í febrúar.

Ef einhverjir hafa ekki fengið skjölin þá er hægt að sækja þau á undirsíðunni EYÐUBLÖÐ hitaveita

Alls hafa 21 umsókn borist um starf rekstrarstjóra Kjósarveitna og þriðjudaginn 8. mars nk verða opnuð tilboð í vinnuna.

Þannig að ekki er hægt að segja annað en það er líf og fjör í Kjósinni. Takið laugardaginn 12. mars frá  - sjáumst í Félagsgarði kl. 14

Með kveðjum,

Stjórn Kjósarveitna

Veðurstöðin niðri - Myndavélar í lagi
23. feb. 2016 12:39

Veðurstöðin hrökk út í nótt en myndavélarnar eru ennþá inni. Ég held að ég komist ekki í að sparka veðurstöðinni aftur í gang fyrr en næstu helgi, en á meðan þá getiði kíkt á myndavélasíðuna og veðurspáritið sem er nokkuð nákvæmt.

28: Feb: Veðurstöðin komin aftur inn.

Athugið með rafmagnið hjá ykkur!
18. feb. 2016 17:59

Veðurstöðin hefur verið óvirk frá því að rarik var að vinna við viðgerðir í gær og tók rafmagnið af Kjósinni.

Ég kom uppeftir til að líta á aðstæður og þá er lekaliðinn hjá mér sleginn út og ekkert rafmagn á húsinu.

Við notum öll rafmagnshitun og mörg okkar skrúfa ekki fyrir vatnið á veturnar og skilja eftir vörur í ísskáp. Því vil ég hvetja alla að gera sér ferð uppeftir og kíkja á aðstæður í húsunum sínum svo ekki fari illa.

Endilega látið vita um aðstæður á fésbókarsíðu félagsins.

Ég sló inn hjá mér og setti tölvurnar í gang þannig að við erum komin með veðrið og myndavélarnar aftur.

Færðin er allt í lagi upp að Norðurnesi og gilið í átt að svæði 2 og 3 er nokkurnvegin jeppafært en það gæti breyst fljótt þar sem það skefur mikið.

Myndavél og veðurstöð óvirk
18. feb. 2016 11:05

Rafmagnsleysið í gær virðist hafa valdið því að tölvan hjá mér hafi dottið alveg út. Ég reyni að sparka í hana fljótlega.

Góð spá um helgina - Búið að moka
12. feb. 2016 18:39

Það er útlit fyrir fallegt vetrarveður um helgina 13.-14. feb og margir sjálfsagt spenntir að kíkja uppí Norðurnesið okkar.

Veganefndin greip tækifærið og fékk Sigurð á Hrosshóli til að renna yfir veginn með traktornum og ætti því að vera nokkuð hægur leikur að fara upp að hliðum.

Fólkið á svæði 2 (miðsvæði) getur farið uppá svæði 3 og lagt þar til að stytta labbið.

Njótið helgarinnar!

 - Veganefnin og stjórnin

Vangoldin félags- og vegavinnugjöld
11. feb. 2016 11:52

Kæru félagar,

Það er óvenju mikið um að meðlimir hafi ekki greitt félagsgjöld sín þetta árið. Við fyrstu athugun lítur út fyrir að það séu 12 ógreidd félagsgjöld og 5 ógreiddir reikningar vegna vegavinnu. Félagið stendur því verr eftir veturinn en vonir stóðu til.

Við sjáum að í flestum tilfellum er um að ræða að annað gjaldið hefur verið greitt en ekki hitt. Endilega kíkið í heimabankann eða sendið okkur póst ef ykkur grunar að þið hafið bara greitt annan reikninginn.

Allt í allt á hver lóð að hafa greitt félaginu 38þ krónur í tveimur reikningum, 23þ fyrir vegavinnu og 15þ í félagsgjöld.

Það væri best að greiða sem fyrst til að forðast innheimtu og aukakostnað sem því fylgir.

 - Stjórnin

Veðurstöðin niðri
15. jan. 2016 09:35

Veðurstöðin er ekki að svara í augnablikinu. Myndavélarnar eru samt ennþá að senda.

Ég kíki á þetta um helgina.

 - Nonni

16. jan: Allt komið í lag aftur :)

Fréttir af færð
14. jan. 2016 08:02

Færðin uppeftir er sæmileg. Það ætti að vera hægt að komast upp að hliðum á stærri bílum (ætti ekki að þurfa fjórhjóladrif) en það er flughált undir snjónum.

Við myndum hvetja fólk til að vera á nagladekkjum upp gilið að svæðum 2-3.

Kv,

Einar og Jón

Slæm færð
03. jan. 2016 12:31

Fengum þessi skilaboð:

Daginn


Komum í gær upp í bústað í Norðurnesi nr 39 ( Einar Sigurgeirsson )  Hér er mikill snjór og ekki fært nema mikið breyttum jeppum en við gátum keyrt alla leið.

Kveðja, Sigga og Sindri

Tímabil:  Nýjast · 2023 · 2022 · 2021 · 2020 · 2019 · 2018 · 2017 · 2016 · 2015 · 2014 · 2013 ·  Allt