Aðalfundur 2020
Jun 03 '20


Aðalfundur Sumarbústaðafélagsins Norðurnes; haldinn í Gerðubergi miðvikudaginn 3. júní 2020.

Fundur var settur af formanni klukkan 20:00. Formaður bar upp þá tillögu að Jón G. Snædal (9) yrði kjörinn fundarstjóri og var það samþykkt af fundarmönnum. Fyrst verk fundarstjóra var að kanna lögmæti fundarins. Löglega var til hans boðað en fundurinn er ekki lögmætur vegna fjölda fulltrúa í samræmi við 7. gr. samþykkta félagsins. Alls voru taldir fulltrúar 25 lóða á fundinum en lágmarks þátttaka til að fundurinn teljist löglegur er 28. Fundinn þarf því að endurtaka og boða til með minnst viku fyrirvara í samræmi við 7. gr. samþykkta félagsins.

Formaður las upp fundargerð síðasta fundar og síðan skýrslu stjórnar, Gjaldkeri kynnti yfirfarna og staðfesta reikninga félagsins og síðan voru þeir bornir undir atkvæði af fundarstjóra. Voru þeir samþykktir samhljóða.

Næst á dagskrá var kjör formanns. Einn var í kjöri til formanns, Jón Bjarnason (74). Var hann kjörinn með öllum greiddum atkvæðum.

Aðrir í stjórn voru kjörnir Björgvin Hauksson (33), Sigurður Sveinn Jónsson (56),  Geir Hauksson (43) og Karl Arthúrsson (10). Benedikt Svavarsson (1) var kjörinn varamaður í stjórn. Skoðunarmaður reikninga var kjörinn Birna G. Björnsdóttir (33). Sigurjón gjaldkeri gaf ekki kost á sér í stjórn aftur.

Jón Bjarnason formaður lagði fram nær óbreytta rekstrar- og framkvæmdaáætlun fyrir utan vatnsveitu. Til vegagerðar er áætlað að verja um 1 milljón króna, til snjómoksturs kr. 200.000, til hliðaframkvæmda 3.000.000 (samkvæmt samþykkt 2018) og til vatnsveitu 2.500.0000. Þá fór formaður jafnframt yfir stöðu máls með læst og fjarstýrð hlið sem kynnt hafa verið rækilega fyrir félagsmönnum. Ekkert nýtt er að frétta af því máli. Eftir samtöl formanns við oddvita hreppsins er hins vegar orðið ljóst að hreppurinn er tilbúinn að koma til móts við félagið og taka þátt í kostnaði við hliðuppsetningu ef samþykkt yrði af félaginu að leggja tvö eða þrjú hlið.

Stjórn lagði til að árgjald yrði kr. 20.000 eins og búið er að innheimta. Vegna lokana af völdum Covid-19, var aðalfundi frestað fram yfir lögboðin tímamörk skv. samþykktum og ákvörðun síðasta aðalafundar um árgjald látin gilda áfram. Rætt var um að næsta ár yrði lögð fram tillaga um hækkun.

Sigurður Sveinn Jónsson kynnti því næst áform um framkvæmdir vegna endurbóta á vatnsveitu. Farið var yfir stöðu veitunnar og sögu endurtekins vatnsleysis. Uppsetning dælu sem myndi flytja vatn úr Trönudalsárveitu og upp í aðalveitu krefst þess að byggt verði hús í landi Möðruvalla og lagður þangað rafstrengur. Sett var fram kostnaðar- og framkvæmdaáætlun. Að kynningu lokinni var lögð fyrir fundinn beiðni um að heimila stjórn að innheimta framkvæmdagjald allt að kr. 40.000 í framkvæmdasjóð. Var það samkvæmt með öllum greiddum atkvæðum.

Undir liðnum önnur mál kom fram eitt mál þar sem tilmælum var beint til stjórnar. Rætt var um aðild félagsins að Landsambandi sumarhúsaeiganda. Lagt var fyrir fundinn að fela stjórn að kanna kosti og galla aðildarinnar og einnig að glöggva sig á því hversu lýðræðisleg samtök landssambandið séu. Nokkrar umræður sköpuðust og ekki voru allir á sama máli en engin niðurstaða fékkst í þetta mál.

Aðrar umræður undir liðnum „önnur mál“ voru eftirfarandi;

  • Stjórn er falið að athuga með að fá vinnuskóla hreppsins til að hreinsa til brak eftir stöðuhýsið/hjólhýsið sem sprakk á lóð 81 en oddviti hefur ljáð máls á því. Ekki hefur tekist að hafa upp á eiganda eða forsvarsmanni. Haft hefur verið samband við skrifstofu hreppsins og rætt við oddvita og byggingarfulltrúa um málið. Óskað hefur verið eftir því að hreppurinn gripi til einhverra þvingunarúrræða til að koma í veg fyrir tjón og sóðaskap. Stjórn sendir fyrirspurn á hreppinn.
  • Fyrirspurn til stjórnarinnar um að fá annan ruslagám og merkja betur. Stjórnin lét að því liggja að það væri ólíklegt til árangurs og vísaði til stefnu hreppsins varðandi endurvinnslu.
  • Vegaspottinn frá ræsinu og upp að húsum 10, 9 og 8 hefur látið á sjá. Þeim ábendingum komið á framfæri við stjórn sem mun fela veganefnd að kanna málið.
  • Nokkrar umræður um hampræktina í Norðurnesi, gögn og galla. Eigendur lóðar 73 hafa sent bréf til stjórnar og tilkynningu á heimasíðu félagins þess efnis að þau hyggist setja niður nokkrar hamp-plöntur. Þar sem öll tilskilin leyfi virðast liggja fyrir þá er ekki hægt að amast við því hvað fólk ræktar á sínum lóðum, sé það öðrum lóðareigendum skaðlaust.
  • Ábendingar til stjórnar um að merkja lóðirnar betur, skilti sem ná bara upp í 60. Stjórn óskaði eftir einhverjum til að taka málið að sér en engin bauð sig fram.

Fundi slitið um klukkan 21:30

Mættir voru fulltrúar 25 lóða.