Fréttir & Tilkynningar

Mál til kynningar fyrir aðalfund
22. apr. 2016 09:51


Kæru félagar,

Stjórnin mun leggja eftirfarandi mál fyrir aðalfund sem haldinn verður nk miðvikudag, 27. apríl í Gerðubergi kl 20.00

Framkvæmdir á vatnsveitu

Vatsnveitunefndin er búin að vera að velta fyrir sér ýmsum útfærsluleiðum til að bæta vatnakostinn í Norðurnesinu. Sú tillaga sem verður lögð fyrir fundinn mun líklega kosta um eða yfir 30.000 kr á lóð. Það verður mögulega greitt eitt fast gjald og svo eitthvað extra til vara sem rukkað verður ef þörf krefst.

Á fundinum verður lokatala komin fram og lögð til kosningar.

Vatnsveita er mikið hagsmunamál fyrir okkur öll og við efumst ekki um að það verði líflegar umræður um þetta. Við viljum hvetja sem flesta til að mæta til að hlusta á vatnsveitunefndina og taka þátt í ákvarðanatökunni.

Breytingar á lögum

Sjá fyrri frétt hér

Félagsgjöld

Stjórnin hyggst leggja til að félagsgjöld verði óbreytt frá því í fyrra, 15.000 kr á lóð. Það er jafnframt möguleiki að á næsta ári verði óskað eftir hækkun.

Það gekk örlítið brösulega að innheimta sum félags og framkvæmdargjöld á sl. rekstarári. Enn eru einhverjir sem hafa ekki greitt. Einhverjir hafa jafnvel ekki greitt félagsgjöld í fleiri ár.

Þetta tekur allt saman mikinn tíma hjá stjórnarmönnum og við erum áhugasöm fyrir því að setja rukkanir í fastara ferli með innheimtu þegar þörf er á. Gjalddagar og innheimtuferli verða rædd á fundinum.

Breytingar á stjórn

Sigurður (nr 13) og Rikki (nr 55) ætla ekki að gefa kost á sér í stjórn aftur. Við þökkum þeim góð störf í gegnum árin.

Það þarf því tvo nýja stjórnarmeðlimi. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við stjórnina fyrir fundinn.

Skilti og merkingar

Stjórnin leggur til að nöfnunum á svæðunum þremur verði breytt úr 'neðra, efra, efsta/nýja' í einfaldlega svæði 1, 2 og 3. Bústaður nr. 59 verður svo hluti af svæði 3 en var hluti af svæði 2 áður.

Rikki (nr 55) er búinn að bjóðast til að taka að sér að gera skilti og koma þeim upp. Það væri gott að fá einhvern með honum í þá vinnu. Þessi skilti munu vísa fólki á rétt svæði með húsanúmerum og einnig verða skilti á hverju hliði til að gefa til kynna að um einkaveg sé að ræða.

Vegavinna

Stjórnin er mjög ánægð með vinnuna sem var farið í síðasta haust og Einar Arason (nr 62) hlýtur miklar þakkir fyrir það frábæra starf sem hann hefur unnið.

Það þarf að halda áfram með vinnuna nú í sumar og klára nokkur útistandandi atriði. Þar með talið er að bæta við efni á nokkrum stöðum fyrir utan hlið, setja niður eitt rör á svæði 2 (efra svæði) og bæta skurði meðfram vegi.

Það verður ekki beðið um auka fjárútlát vegna vegagerðar en líklegt þykir að stór hluti félagsgjalda muni renna til þessa liðar.

Einar vill endilega fá álit fólks á framkvæmdum og umræðu um hvað ætti að gera og hvar. Endilega komið með tillögur á fundinn og ekki væri verra að hafa uppdrætti og/eða myndir máli til stuðnings.

Hitaveita

Það verður rætt á fundinum um svarhlutfall í Norðurnesi en stjórnin hefur fengið bráðabirgðatölur frá Kjósarveitum. Í stuttu máli sagt þá lítur það ekkert sérlega vel út með hitaveitu hjá okkur en það hafa alltof fáir sent inn svar hingað til.

Stjórnin vill, eftir samráð við Kjósarveitur, hvetja alla að svara bréfinu frá Kjósarveitum þrátt fyrir að fresturinn sé runninn út. Það er betra að svara 'nei' eða 'kannski seinna' frekar en að senda ekkert svar. Það er svo líklegt að fulltrúi Kjósarveitna muni byrja að hringja í fólk sem ekki hefur sent svarbréf til að fá svör.

Á fundinum mun stjórnin ræða aðeins um núverandi stöðu á verkefninu og svara spurningum.

Aðgengi að vetri

Það verður rætt um hvað sé hægt að gera til að bæta aðgengi að svæðinu yfir vetrarmánuðina, snjómokstur, gróður meðfram vegum og slíkt.

Óæskilegur gróður

Stjórnin hyggst leggja til atkvæðagreiðslu hvort vilji sé innan félagsins að halda kerfli og lúpínu í skefjum á svæðinu. Ef svo er þá verður óskað eftir áhugasömum til að fylgja því verkefni eftir.

Rollur inná svæðum

Í fyrra ollu rollur á svæðunum einhverju raski og virðast geta komist óhindrað yfir kindahliðin okkar. Stjórnin hefur rætt um hliðgrindur inná svæðin en það verður ekki kíkt á það á þessu ári. Sigurjón (nr. 15) ætlar að taka að sér að kíkja á núverandi kindahlið og athuga hvort eitthvað sé hægt að gera í sumar án mikils tilkostnaðar. Gott væri að fá einhvern með honum í þetta.

Vöktun

Síðastliðið haust var sett upp eftirlitsmyndavél við veginn inn Norðurnesið. Formaður segir aðeins frá þessu verkefni og rætt verður um hvort það séu einhver næstu skref hérna eða hvort félagar séu sáttir við núverandi fyrirkomulag.

Girðing og minni framkvæmdir

Það þarf að ganga meðfram girðingu og laga þar sem þarf eftir veturinn. Leitað verður eftir áhugasömum til að taka það að sér.

Einnig verður rætt um hvort það sé einhverra annarra minni framkvæmda þörf sem hægt er að vinna sem samvinnuverkefni meðal félagsmanna eins og að leggja göngustíga, litlar brýr o.s.frv.

Brennan

Brennan gekk mjög vel í fyrra og stjórnin þakkar Soffíu (nr. 61) og fjölskyldu fyrir að sjá vel um það. Við vonum að þau séu reiðubúin að endurtaka leikinn á þessu ári. Ef einhverjir hafa hugmyndir með brennuna eða tengda atburði þá getum við rætt það.

 

Þetta er ekki tæmandi listi yfir það sem verður rætt á fundinum en gefur ágætis yfirsýn yfir dagskránna. Við viljum hvetja alla sem hafa fleiri mál að ræða undir liðnum 'önnur mál' að undirbúa mál sitt og ekki væri verra að senda stjórninni upplýsingar um það fyrir fundinn.

Eins og venjulega höfum við margt að ræða og við þurfum að nýta tímann vel.

Við hlökkum til að sjá sem flesta á miðvikudaginn.

 - Stjórnin

  
Til baka